Svo bregðast krosstré

12 0 0
                                    

Það situr barn fyrir aftan mig í strætónum og sparkar í sætið. Pirringurinn í mér eykst við hvert spark. Mér er nær að snúa mér við og æpa á það og móður þess um mannasiði en kyngi orðunum með herkjum. Vona bara við hvert stopp að þau fari út, sem þau gera ekki. Ég set tónlistina í hæsta í eyrunum og leyfi henni að kæfa hávaðann í kring ásamt króníska hátíðnihljóðinu sem hefur fylgt mér síðan hljóðhimnan rifnaði í fyrra.

Eyrnalæknirinn sagði mér að ég væri með þunna hljóðhimnu og ætti helst að sleppa því að nota eyrnatappa. Ég hafði ætlað að segja honum að ég notaði aldrei eyrnatappa en hætti við. Á einhvern kaldhæðnislegan hátt byrjaði ég svo að nota þá af og til eftir þetta. Hljóðhimnan gréri á endanum en hátíðnihljóðið fór aldrei.

Ég finn bílveikina læðast upp að mér. Hvernig hausinn fer að verða þyngri og ógleðin myndast neðst í maganum en fikrar sig svo upp hálsinn. Ég einbeiti mér að því sem ég get séð fyrir utan vagninn. Það kyngir niður snjó. Svona snjór eins og er í bíómyndum, stórar flygsur sem svífa hægt til jarðar. Eins og þær séu að vanda sig við hvar þær ætli að lenda. Skyggnið er lélegt og það er hvítamyrkur. Mér finnst eins og heimurinn hafi minnkað um allavega tvö heil númer.

Ég fer út á undan konunni og barninu. Ég hvessi á það augun þegar ég stend upp en það tekur ekki eftir því. Of upptekið við að sparka í sætið. Það er í rauðum stígvélum, alveg eins og ég átti sem barn. Ég þoli ekki foreldra sem kaupa ekki kuldaskó á börnin sín.

Þegar ég stíg út úr vagninum lenda fæturnir beint ofan í snjóskafl. Týpískt. Heimurinn hefur minnkað um enn eitt númer. Mér líður eins og ef ég tyllti mér á tá og teygði mig upp þá gæti ég snert himininn.

Á meðan ég labba frá stoppistöðinni fer ég yfir línurnar í hausnum á mér. Þetta er ekki þú, þetta er ég. Alltof klisjukennt. Ég er bara ekki á rétta staðnum fyrir samband akkúrat núna. Kannski, það hljómar allavegana skárra. Orðin bergmála í hausnum á mér þangað til þau hljóma ekki lengur eins og orð. Sama hvað ég hugsa finnst mér ekkert af því vera það rétta til þess að segja þegar sambandi er slitið.

Þegar hann opnar hurðina er eins og allt sem ég hugsaði á leiðinni gufi upp. Ekki því mig langi ekki lengur að hætta með honum. Ég get bara ekki munað neitt af því sem ég æfði á leiðinni. Ég stend í dyragættinni og stari á hann án þess að segja neitt. Mér líður eins og ég hafi aldrei í rauninni horft framan í hann. Aldrei meðtekið hversu stutt það er á milli augnanna og hvernig nefið beygist örlítið til hægri. Hann hlær og spyr hvort ég ætli ekki að koma inn. Ég kinka kolli og stappa snjóinn af skónum áður en ég stíg inn í forstofuna.

Við horfum á mynd en ég get ekki einbeitt mér að henni, suðið í eyrunum er of hávært. Hann spyr hvort ég vilji gista að henni lokinni. Það er eitthvað blik í augunum hans sem mér líkar ekki við. Það minnir mig á af hverju ég ætla að hætta með honum. Ég svara neitandi og lýg því að mér sé illt í maganum. Að mig langi bara heim. Hann strýkur á mér bakið og spyr hvort ég vilji að hann skutli mér. Alltaf svo óþolandi góður. Ég hristi hausinn, frískt loft væri gott fyrir mig. Hann kyssir mig áður en ég fer og grípur um mjaðmirnar á mér. Einu sinni hefði mér þótt það gott en núna sný ég mig úr greipum hans og reyni að setja upp kurteisislegt bros.

Fyrir utan er heimurinn orðinn svo lítill að hann þrengir að mér. Mig langar helst að fara á fjóra fætur og skríða að stoppistöðinni.

Á leiðinni heim sitja tveir ungir og illa klæddir menn fyrir aftan mig. Þeir anga af grasi og hljóma eins og þeir hafi líka fengið sér í aðra tána. Þeir eru með læti, spila tónlist upphátt úr símanum og syngja hástöfum með. Jafnvel tónlistin í hæstu stillingu í eyrunum mínum getur ekki yfirgnæft þá. Annar þeirra byrjar að berja á sætisbakið mitt í takt við tónlistina. Mér sortnar fyrir augum af bræði. Þegar ég fæ sjónina aftur finn ég að ég stend yfir þeim. Frá því sjónarhorni virðast þeir jafn litlir og barnið í rauðu stígvélunum.

„Hvað er að ykkur? Getiði hagað ykkur almennilega?" Ég veit að röddin er mín en mér finnst hún ekki koma úr raddböndunum heldur einhverstaðar djúpt ofan úr maganum. Mennirnir þagna og ég sest aftur niður. Ég heyri í þeim flissa og pískra eitthvað fyrir aftan mig en mér er sama.

Þegar ég stíg út úr vagninum er heimurinn aftur í réttri stærð. 

You've reached the end of published parts.

⏰ Last updated: Mar 24, 2022 ⏰

Add this story to your Library to get notified about new parts!

Svo bregðast krosstréWhere stories live. Discover now