Ég var ekki viss um að hún hafi nokkurn tíma verið til en hún hlýtur að hafa gert það. Maður verður að vera til, til þess að geta horfið. Hún skildi ekkert eftir sig. Enga hluti, engin orð og engar minningar. Stundum hélt ég að ég hefði fundið eitthvað sem sannaði tilvist hennar en mér skjátlaðist í hvert sinn. Því meira sem ég reyndi að sjá andlitið hennar fyrir mér því meira gleymdi ég því hvernig hún hafði litið út. Þegar ég spurði fólk út í hana þóttist það muna eftir henni og sagði eitthvað mjög óljóst eins og; já, hún var mjög fín stelpa. Ég fann að ég saknaði hennar en það var ekkert til þess að sakna.
Ég hugsaði stundum um það, þegar ég lá við hliðina á henni í myrkrinu og starði á hnakkann á henni, hvort hún væri í raun þarna í alvörunni. Ég myndi leggja höndina varlega á öxlina á henni og strjúka niður eftir handleggnum. Stundum rumskaði hún við það og gaf frá sér lítið hljóð áður en hún sökk ofan í svefninn aftur. Það veitti mér einhvert öryggi að ég gat fundið fyrir henni. Stundum var ég hrædd um að hún myndi fljóta í burtu ef ég væri ekki að snerta hana einhverstaðar. Eins og kvöldið sem við kysstumst í fyrsta skipti, þegar við héldum þéttingsfast utan um hvor aðra þegar við kvöddumst. Líkt og við værum hræddar um að ef við slepptum þá myndi hin takast á loft. Mig hafði langað að leggja ennið mitt upp að hennar og láta hausana renna saman. Það var einhver djúpur einmanaleiki innra með mér sem þráði að vera við en ekki bara ég. Það var bugandi að vera bara ég. Fannst óþægilegt þegar ég var ekki með henni. Hver væri þá að staðfesta að hún væri þarna í raun? Þegar ég tróð hendinni í vasann hennar og fingurnir fléttuðust saman, mynduðu þeir akkeri sem hélt okkur á jörðinni. Ég man hvernig mér fannst eins og hendurnar okkar hefðu verið mótaðar fyrir hvort aðra. Eins og þær hefðu verið ein og sama höndin einu sinni og loksins fundið hvor aðra aftur. Samt sem áður hafði ég áhyggjur af því að fingurnir myndu flækjast saman í rembihnút sem við gætum aldrei náð að leysa úr. Þegar mér leið þannig dró ég hendina mína varlega upp úr vasanum. Hún spurði mig aldrei af hverju. Seinna gerði ég mér grein fyrir því að það myndaðist rembihnútur. Ekki í fingrunum heldur í hjartanu. Hnútur sem ég myndi aldrei ná að leysa úr. Sama hvað ég reyndi.
Ég reyndi þó að leggja áherslu á það að vera mín eigin manneskja og sinna mínum áhugamálum ásamt því að hitta mína vini. Það var þó eins og vinir mínir yrðu að pappaspjöldum eftir að ég kynntist henni. Ekkert sem þau gátu sagt eða gert vakti áhuga minn. Það hefði án efa verið mun áhugaverðara ef hún hefði sagt eða gert það. Ég fann hvernig hún tók upp allt plássið í höfuðkúpunni en ekki aðeins þar. Hægt og rólega dreyfði hún úr sér þar til hún var komin út í alla fingurgóma og hvert einasta hár á höfði mínu. Hver einasti andardráttur sem ég tók var tileinkaður henni.
„Þú elskar of mikið."
Ég starði á hana tómum augum. Hvernig var hægt að elska of mikið? Hvernig er of mikið af ást?
„Mér líður eins og ég geti ekki andað. Eins og ástin þín fylli upp í allt og kæfi mig."
Orðin boruðu sig inn í heilann á mér eins og ormur í epli. Ég gat ekki losað mig við þau sama hvað ég reyndi. Mögulega var það satt. Ég fór að draga mig í hlé smám saman. Vafði hjartanu inn í bóluplast og klippti vængina af fiðrildunum í maganum. Hafði áhyggjur af því að þau myndu skríða út úr munninum á mér ef ég opnaði hann svo ég hætti að tala líka. Það virtist henta henni. Ég varð að húsgagni inni hjá henni eða einhverju verkfæri. Var alltaf til staðar fyrir hana, en annars lítið gagn að mér.
„Veistu, stundum held ég að þú sért ekki alvöru manneskja. Kannski ertu bara ímyndaði vinur minn eða eitthvað."
Hún horfði beint í gegnum mig. Hún hafði spítt orðunum út úr sér eins og ómerkilegu fiskbeini. Ég íhugaði hvað það þýddi fyrir mig ef ég væri ekki til. Fannst það þó ekki ómögulegt. Hver ég hafði verið áður en ég kynntist henni var löngu dauð og ég mundi ekki hver hún hafði verið yfir höfuð. Vissi ekki hvaða litur hafði verið uppáhalds liturinn minn eða hvort mér hafði líkað betur við sólarupprásir eða sólarlög. Núna var ég bara hún nema ég eða kannski var hún ég. Ég var allavega handviss um að við værum við. Þessi ég var löngu týnd. Kannski var hún ennþá hún hinsvegar.
„Nú?"
Var það eina sem ég gat komið upp úr mér.
„Já, stundum finnst mér allt svo óraunverulegt en þá alltaf sérstaklega þú."
Það kvöld lá ég uppi í rúmi með galopinn munn og leyfði öllum fiðrildunum að skríða upp kokið og út úr mér. Þau gengu í beinni línu líkt og maurar út um gluggann. Kannski höfðu þau alltaf verið maurar. Fletti bóluplastinu af hjartanu sem hafði tekist að splundrast þrátt fyrir allt saman. Hafði ekki orkuna til þess að tína brotin saman, leyfði þeim bara að skrölta í brjóstholinu. Ég varð gegnsærri með deginum. Kippti mér ekkert upp við það. Því gegnsærri sem ég varð því minna fann ég fyrir hjarta brotunum stinga mig.
Ég veit ekki hvor okkar það var sem sleppti takinu en það var allavega hún sem flaut burt, á meðan ég sat eftir. Það var eins og ég væri með steypuklumpa í skónum og grjót í maganum. Ég reyndi að píra augun og sjá hvort það hefðu sprottið á hana vængir en sólarljósið var of skært. Kannski táraðist ég vegna þess í fyrstu en áður en ég vissi af var ég hágrátandi. Eins og barn sem hefur týnt foreldrum sínum og veit ekki hvað annað er hægt að gera í stöðunni en að vola. Ég var aftur ég. Eða ég var hún og ég flaut í burtu. Einhverstaðar höfðum við runnið saman svo það skipti í rauninni ekki máli hvor okkar varð eftir. Samblandaðar með eitt gallað hjarta og hitt í molum. Önnur með vængi og hin með grjót í maganum. Mögulega.