Leynibankið

68 5 2
                                    

„Heyrðirðu þetta?" Spyr Gabríel og horfir á mig. Ég veit ekki hverju ég á að svara. Ef ég segi já myndi hann verða þrefalt hræddari en hann er núna og það yrði alls ekki gott. En ef ég segi nei væri ég að ljúga. Ég þurfti að hugsa mig lengi áður en ég svaraði. Kannski aðeins of lengi. Gabríel horfði á mig með stóru brúnu augunum sínum í von um að fá svar. „Þetta var örugglega bara vindurinn. Ekki vera hræddur." Ég laug. Þetta var sannarlega ekki vindurinn. En hann þarf ekkert að vita það. „Gabríel, við skulum fara í smá leik." Ég horfði á hann og sá hvað hann var áhyggjufullur. Ég reyni að vera róleg. „Þú byrjar á því að fela þig hérna inni í fataskáp á meðan ég fer fram og þú kemur ekki út fyrr en þú heyrir leynibankið." Röddin mín titraði. „Hvað er leynibankið?" Spurði Gabríel. Ég færði dökka síða hárið frá hringlótta andlitinu hans. „leynibankið eru þrír slættir." Ég bankaði einu sinni í hurðina. „Einn." Ég bankaði aftur. „Tveir." Og einu sinni enn. „Þrír." Hann kinkaði kolli og fór inn í skápinn. Það var ekki þröngt og hann passaði fullkomlega. Ég tók utan um hann. „Ég kem eftir smá stund." Hann kinkaði aftur kolli og ég lokaði skápnum. „Farðu varlega Elín." Heyrði ég hann hvísla. 

Ég er stolt af mér hversu hugrökk ég er fyrir litla bróður minn. Þó að ég sé bara þrem árum eldri, er hann bara í fyrsta bekk. Ég er samt rosalega hrædd. Ég veit ekki hvað er í gangi frammi. Við erum búin að vera inni í herbergi síðan mamma og pabbi fóru á ballið og barnapían kom. Við vorum sofandi þegar við hrukkum bæði við óhljóðin. En ég verð að sjá hvaðan þessi hljóð koma. Ég opna hurðina hægt og rólega. Það brakar smá í henni en það er ekkert nýtt, það brakar í öllu í þessu timburhúsi. Ég kíki fram á ganginn og lít í báðar áttir. Ég sé ekki neitt en ég heyri í einhverjum tala. Ég labba niður ganginn og að stiganum sem liggur niður í stofu. Barnapían mín, hún Sara, er þar með einhverjum strák sem ég sé ekki hver er. Það er blómavasi brotinn á gólfinu og nokkrir rammar af veggnum líka. Ég reyni að fela mig svo þau sjá mig ekki. Þau eru ekki að tala lengur heldur öskra á hvort annað. Strákurinn öskrar meira en Sara. Hann tekur upp annan blómavasa og hendir honum í gólfið og ég er orðin rosalega hrædd. Ég ætla að snúa mér við og fara aftur inn í herbergi en strákurinn snýr sér við og ég sé hver þetta er. Bubbi kærasti Söru. Ég þekki hann því hann var einu sinni með Söru að passa mig og Gabríel. Hann var rosalega skemmtilegur og fyndinn. Ég skil ekki hvernig þetta er sama manneskjan. Hann heldur á einhverju og mér sýnist það vera einhverskonar flaska. Þau eru að rífast um eitthvað en þau tala svo mikið ofan í hvort annað að ég heyri ekki hvað þau eru að rífast um. Ég er byrjuð að titra og mig langar í mömmu og pabba en klukkan er bara tólf. Þau eru ekki að fara að koma neitt fljótlega heim svo ég verð bara að hringja í þau. Nei, ég get það ekki því heimasíminn er niður í stofu. Hvað á ég að gera? Bubbi er orðinn rosalega reiður. Mér finnst hann líta á mig en ég er ekki viss þannig að ég hleyp inn á baðherbergi og læsi. Hjartað mitt hamast og ég á í erfiðleikum með að anda. Ég get varla hugsað. Hvað er í gangi niðri? Ætlar Bubbi að meiða Söru? Ætlar hann að meiða mig? Ætlar hann að meiða Gabríel? Það má ekki meiða Gabríel. Ég horfi í kringum mig og sé allt í einu síma blasa við mér. Þetta er síminn hennar Söru, hún hefur gleymt honum hérna inni. Frábært! Þá get ég hringt í mömmu og pabba og fengið þau heim eins og skot! Þá mun Bubbi ekki meiða neinn og... Læstur. Síminn er læstur. Hvað á ég núna að gera? Ég sest á gólfið og byrja að gráta. Kannski er ég ekki eins hugrökk og ég hélt að ég væri. 

Fleiri óhljóð berast frá stofunni og það fyrsta sem mér dettur í hug er að fara aftur til Gabríels. Hann er örugglega orðinn rosalega hræddur. Um leið og ég stend upp og sný hurðarhúninum hættu óhljóðin. Allt verður hljótt. Ég þori ekki að opna hurðina og set eyrað mitt upp við hana. Þögn. Ég bíð í smá tíma. Ennþá þögn. Það væri hægt að heyra saumnál detta. Ég þori ekki fram. Eftir skamma stund heyri ég eitthvað. Brak í stiganum og gólfinu. Er Bubbi að koma? Ætlar hann að meiða mig? Ég finn einhvers konar lykt. Svona lykt eins og kemur þegar mamma er að elda. Er mamma komin heim? „Mamma!" öskra ég. Það kemur bros á andlitið mitt og ég opna baðherbergishurðina. Brosið rennur af mér fljótlega og ég byrja að hósta. Það er reykur út um allt og rosalega heitt. „Mamma! Pabbi!" Það er eins og öskrin mín hverfa inn í reykinn. Ég get ekki hætt að hósta. Það er erfitt að labba en ég reyni að fara niður stigann. Í stofunni er eldur. Það er kviknað í! Ég rembist upp stigann og skríð eftir ganginum. Ég er að sofna. Ég skríð nær herberginu okkar Gabríels þar sem hann er enn inni í skáp en því nær sem ég kem, því þreyttari verð ég. Ég verð bara að hvíla mig aðeins. Ég verð.

Þegar ég opna augun er ég uppi í rúmi. Þetta var þá bara draumur. En þetta er ekki rúmið mitt. Ég er ennþá rosalega þreytt og ég reyni að segja eitthvað en það kemur ekki orð. Ókunnug kona labbar inn til mín og spyr mig hvernig mér líður. „Ágætlega." Röddin mín er rám og dökk. „Hvar eru mamma og pabbi?" Konan horfir á mig. „Þau eru á leiðinni. Hvíldu þig bara." Hún brosti. „Hvað gerðist? Af hverju er ég hér." Ég lít í kringum mig og sé að ég er á spítala. Konan andar djúpt og brosið hvarf. „Það kviknaði í húsinu þínu en slökkviliðsmennirnir náðu að slökkva eldinn og..." Konan hélt áfram að tala en ég gat ekki einbeitt mér að neinu sem hún sagði. Þetta var þá ekki draumur. Foreldrar mínir komu til mín á meðan konan var ennþá að tala. Þau sögðu líka eitthvað en ég gat ekki heyrt í þeim fyrr en þau spurðu hvar Gabríel væri. Konan svaraði á móti að það var aðeins ég og Sara sem voru inni í húsinu og ég hafi bara fundist lifandi. 

Leynibankið - smásagaWhere stories live. Discover now